Dagskrá foreldrafélagsins vorönn 2015
10. mars kl. 19:30 „Ást gegn hatri“
Selma Björk ásamt föður sínum Hermanni kom í Vatnsendaskóla í haust og talaði við nemendur í 5. – 10. bekkjum og sagði frá sinni sögu. Hún lagði mesta áherslu á viðhorfið sem hún hefur verið alin upp við, það er að mæta hatri með ást. Hermann kom síðan um kvöldið og talaði við okkur foreldra. Þetta var feykilega góður fundur hjá Hermanni þar sem hann sagði frá þeim leiðum sem hann notar í uppeldinu og hvernig þau feðgin tóku á eineltinu í sameiningu og að hann hafi alltaf verið til staðar fyrir dóttur sína.
Mikill fjöldi foreldra mætti á fundinn og urðu góðar umræður í lok fyrirlestursins. Einnig tók Hermann á þeim hættum sem börnum okkar stafar af internetinu. Ekki komust allir á fundinn í haust þó að mætingin hafi verið frábær, því tókum við á það ráð að hafa samband við Hermann aftur og byðja hann um auka fyrirlestur. Hermann tók þessu vel og erum við honum afskaplega þakklát. Við hvetjum ykkur öll sem ekki komust að mæta á þriðjudaginn n.k. og þið sem mættuð þá, – hvetjið ykkar maka til að mæta núna.
25. Mars – hið árlega „Páska Bingo“ 10. Bekkinga
„Páska Bingo“ vetrarins verður með örlítið breyttu sniði, í ár verðum við með þetta tvískipt þ.e. 1. og 2. bekkur mæta fyrst og síðan eldri bekkingar. Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel hjá vinum okkar í Hörðuvallaskóla og ákváðum við því að prófa þetta núna, því ásóknin á bingóið hefur verið mikil síðustu ár. Nánara fyrirkomulag verður auglýst síðar.
21. apríl „Auka aðalfundur foreldrafélagsins“
Á stjórnarfundi félagsins sem haldinn var 24. Febrúar sl. var þeim stjórnar meðlimum Klöru og Árnínu falið að yfirfara samþykktir félagsins og koma með breytingartillögur ef þurfa þykir. Ennfremur hefur stjórnin ákveðið að skoða hvort fyrirkomulagið sem nú er viðhaft varðandi Aðalfund þ.e. að halda hann að hausti sé betra en það að halda hann að vori. Þessu var breytt fyrir einum 3-4 árum síðan og ætti því að vera hægt að gera góðan samanburð. Ef niðurstaðan verður sú að tillögur um „samþykktar“ breytingar verða ákveðnar, þá er stefnt að því að halda auka aðalfund þann 21. Apríl. Við fögnum öllum góðum hugmyndum, þeim sem vilja leggja sitt af mörkum er bent á að hafa samband við okkur í póstfangið vatnsendaforeldrar@gmail.com
31. maí „Hjóladagur Vatnsendaskóla“
Í ár ætlum við að breyta lítið eitt út af hefðinni. Að vanda verður hjólað í Guðmundarlund en að þessu sinni hefur foreldrafélagi að ákveðið að bjóða öllum uppá grill og standa fyrir einhverjum uppákomum. Nánari dagskrá auglýst síðar.
7. maí kl. 19:30 „Ber það sem“ – Þórdís Elva Þorvaldsdóttir ATH breyttur tími!!
„Ber það sem eftir er“ fjallar um mikilvægt þjóðfélagsmál sem varðar ungu kynslóðina, nefnilega sexting (sem felur í sér að skiptast á nektarmyndum) og hefndarklám (að dreifa nektarmyndum án samþykkis). Þórdís Elva er rithöfundur, fyrirlesari og höfundur verðlaunaðra bóka og námsefnis fyrir börn og unglinga. Þar má nefna stuttmyndirnar „Fáðu já!“ sem Páll Óskar leikstýrði 2013 og forvarnarmyndina „Stattu með þér!“, sem frumsýnd var í grunnskólum landsins síðastliðið haust.
Í september sl. birtist viðtal við yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Fréttablaðinu, þar sem hann kallaði eftir fræðslu og vitundarvakningu til að stemma stigu við nektarmyndum af íslenskum börnum sem ganga manna á milli á netinu. Myndirnar eru í sumum tilvikum afleiðing af sexting, sem margir krakkar í dag iðka án þess að gera sér grein fyrir hugsanlegum afleiðingum.
Eftir lestur viðtalsins ákvað Þórdís að láta til skara skríða og setti saman í því skyni vandaðan fyrirlestur um sexting og hefndarklám, sem byggir á upplýsingum m.a. frá lögreglunni og SAFT, netöryggisverkefni Íslands – í samstarfi við Vodafone, sem styrkir fyrirlestrarröðina. Markmiðið er að kenna foreldrum helstu hugtökin í þessum málaflokki, benda á leiðir til að fyrirbyggja að barn þeirra verði fyrir skaða og hvernig best er að bregðast við ef svona mál kemur upp í nærumhverfi þeirra. Allir foreldrar eru velkomnir, enda aldrei of snemmt að kynna sér áskoranirnar sem fylgja tækninýjungum.
Hér blaðagrein sem Þórdís ritaði í haust um sexting og hvers vegna mikilvægt er að vita um hvað það snýst:http://www.visir.is/nakin-a-netinu—myndir/article/2014709109975
Einnig er frekari fróðleik um átakið má finna á
http://www.vodafone.is/samskipti/heilraedi/sexting/
10. júní „Skólaslit“
Að sjálfsögðu verður blásið til veglegrar hátíðar. Að þessu sinni verður samstarfið við 9. Bekk eflt til muna og stefnum við á það að boða 9. Bekkinga til skrafs og ráðagerðar strax eftir páskaleyfi.
Aftur og aftur!! við vonumst til þess að sjá ykkur sem flest á viðburðum vorannarinnar.