Námið

Til að uppfylla markmið grunnskólalaga  og Aðalnámskrár þurfa kennsluhættir að vera fjölbreyttir og sífellt þarf að hafa í huga að mæta þörfum hvers og eins nemenda.

Í Vatnsendaskóla er lögð rík áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og einstaklingsmiðað nám. Áhersla er lögð á umhverfis- , rannsóknar- og vettvangsnám. Gildi skólanámskrár byggist á virðingu, vináttu, samvinnu og skapandi skólastarfi. Sérstök áhersla er lögð á náttúrufræði og raungreinar og útikennsla er ríkur þáttur í skólastarfinu þar sem skólinn er staðsettur í fallegu umhverfi við Elliðavatn.

Í Vatnsendaskóla er litið á hvern árgang sem eina heild. Kennarar árgangsins bera sameiginlega ábyrgð á nemendum og vinna saman að því að skipuleggja nám nemenda. Þetta fyrirkomulag stuðlar að sveigjanleika og býður upp á möguleika að breyta hópum í samræmi við viðfangsefni og aukna samkennslu þar sem það á við. Þannig nýtist styrkur og hæfni starfsfólks nemendum. Nemendum árganga er skipt í mismunandi hópa og lögð er áhersla á að nemendur í sama árgangi kynnist vel og fái tækifæri til að vinna saman. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að efla félagsþroska og félagsfærni nemenda, auka samkennd og þjálfa nemendur í að vinna með ólíkum einstaklingum að fjölbreyttum verkefnum. Þannig læra nemendur að taka tillit til þarfa hvers annars og verða hæfari til að lifa og starfa í lýðræðis þjóðfélagi. Ýmsar leiðir eru færar til að þjálfa nemendur í þessum þáttum en farsælast teljum við að starfið í skólanum bjóði upp á það mikla samvinnu nemenda að þau þjálfist í þessum þætti í gegnum raunveruleg viðfangsefni. Sameiginleg ábyrgð á námi og líðan nemenda er grunnurinn í stefnu skólans.

Heimanámsstefna skólans

Vatnsendaskóli leggur áherslu á mikilvægi heimanáms sem í upphafi skólagöngu felst aðallega í aukinni þjálfun í lestri. Hver kennari sér um skipulag á yfirferð námsefnisins og ákveður það efni sem vinna skal heima. Alltaf er tekið tillit til þeirra einstaklinga sem eru hægir í vinnubrögðum og heimanámið aðlagað þeim sérstaklega í samráði við foreldra. Heimanámsáætlun birtist á mentor.is. Foreldrum er bent á að hafa samband við viðkomandi kennara ef þeir telja heimanám of mikið eða of lítið hjá sínu barni.

Heimalestur

Viðmið Vatnsendaskóla í heimalestri er að nemendur lesi fimm sinnum í viku undir handleiðslu foreldra og ætlast er til að foreldrar kvitti að lestri loknum.

Skráning á heimalestri í Mentor

Umsjónarkennari fylgist með ástundun nemenda í heimalestri og vinnur eftir ákveðnum verklagsreglum í því sambandi. Kennari skráir athugasemd vikulega í Mentor.

  • Ef nemandi hefur ekki náð viðmiði sendir kennari foreldrum netpóst.
  • Ef ástundun batnar ekki þrátt fyrir tilmæli hringir umsjónarkennari í foreldra.
  • Ef ástundun batnar ekki þrátt fyrir samtal við foreldra boðar umsjónarkennari til fundar.
  • Ef ástundun batnar ekki þrátt fyrir ítrekuð tilmæli boðar umsjónarkennari til fundar með skólastjórnendum.