Lög foreldrafélagsins

Starfsreglur Foreldrafélags Vatnsendaskóla

1. gr. Nafn félagsins og aðild að því.

Félagið heitir foreldrafélag Vatnsendaskóla. Heimili þess er í Vatnsendaskóla, Funahvarfi 2, 203 Kópavogi. Félagsaðilar eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Vatnsendaskóla.

2. gr. Hlutverk og markmið félagsins.

Hlutverk foreldrafélagsins er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Félagið skal taka mið af ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem Alþingi og viðeigandi ráðuneyti setja um grunnskóla hverju sinni.

Markmið félagsins er að:

Efla kynni foreldra innbyrðis og stuðla að umræðum og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál.

Veita skólanum aðstoð og liðveislu vegna ákveðinna verkefna og starfa í skólanum.

Taka þátt í samstarfi við foreldrafélög og foreldra- og kennarafélög svo og samtök sem vinna að málefnum barna og unglinga.

Hafa forgöngu í félagslífi sem stuðlar að þátttöku foreldra og barna í Vatnsendaskóla.

3. gr. Aðalfundur og stjórn.

Aðalfund skal halda eigi síðar en í apríl ár hvert og boðað skal til hans með minnst viku fyrirvara með sannanlegum hætti, t.a.m. með tölvupósti. Fundurinn skal haldinn í húsnæði skólans. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1.    Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2.    Skýrsla stjórnar lögð fram.

3.    Reikningar lagðir fram til samþykktar.

4.    Breytingar á starfsreglum.

5.    Ákvörðun félagsgjalds.

6.    Kosning stjórnar.

7.    Kosning í skólaráð.

8.    Önnur mál.

4. gr. Kosning stjórnar og fulltrúa í skólaráð.

Félagið kýs sér a.m.k. fimm manna stjórn til eins árs í senn. Þó er æskilegt að ekki fleiri en þrír gangi úr stjórn hverju sinni.

Á sínum fyrsta stjórnarfundi skiptir stjórnin með sér verkum og kýs formann, ritara, gjaldkera, röltstjóra og meðstjórnendur. Jafnframt skal kjósa varafulltrúa og fulltrúa foreldra í skólaráð. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Stjórn félagsins markar stefnu þess og starfsáætlun.

Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo fulltrúa í skólaráð.

5. gr. Bekkjarfulltrúar.

Foreldrafélagið skal hafa milligöngu um að bekkjarfulltrúar verði skipaðir á vorin en á haustin fyrir 1. bekk. Kjósa skal a.m.k. tvo til þrjá fulltrúa foreldra úr hverjum bekk, sem fara með umboð allra foreldra barna hvers bekkjar. Verksvið fulltrúanna er að vinna að góðum tengslum milli barna, foreldra og umsjónarkennara.

Mappa með upplýsingum fyrir bekkjarfulltrúa skal fylgja hverjum bekk (Foreldrabankinn frá Heimili og skóla). Stjórn foreldrafélagsins skal funda með bekkjarfulltrúum í byrjun skólaársins.

Bekkjarfulltrúar í hverri deild; yngstu-, miðdeild og unglingadeild hafa umsjón með einum af þremur af þeim aðalviðburðum sem foreldrafélagið stendur fyrir á hverju ári og fá foreldra úr sínum bekk til aðstoðar. Stjórn foreldrafélagsins ákveður hvaða deild ber ábyrgð á hverjum viðburði.

6. gr. Nefndir.

Stjórn félagsins getur skipað félagsaðilum í nefndir um ýmis afmörkuð verkefni og ber ábyrgð á störfum þeirra.

7. gr. Árgjald.

Stjórn félagsins er heimilt að óska eftir því að foreldrar greiði framlag eða árgjald til félagsins.

Upphæðin skal ákveðin á aðalfundi.

8. gr. Fjárreiður foreldrafélagsins.

Stjórn foreldrafélagsins ráðstafar fjármunum félagsins í þágu nemenda skólans. Nemendur geta farið fram á styrk úr félaginu.

9. gr. Afstaða foreldrafélagsins.

Stjórn félagsins hefur engin afskipti af né tekur afstöðu til ágreinings eða vandamála er upp kunna að koma milli einstakra foreldra, bekkja eða árganga og starfsmanna skólans eða á milli einstakra foreldra, bekkja eða árganga  og yfirvalda menntamála í Kópavogsbæ eða á landsvísu. Stjórnin hefur heldur ekki milligöngu um málamiðlanir af neinu tagi þegar slíkur ágreiningur kemur upp.

Stjórn foreldrafélagsins hefur heldur ekki milligöngu um samskipti einstakra foreldra, bekkja eða árganga við stofnanir; hvort sem þær eru opinberar eða í einkaeigu.

Öðru máli gegnir þegar um er að ræða málefni sem snerta alla nemendur skólans, starf skólans í heild eða þær aðstæður sem skólanum eru búnar til að sinna starfsemi sinni. Í slíkum tilvikum er tekin afstaða í hverju máli fyrir sig.

10. gr. Breytingar á starfsreglum.

Starfsreglum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með einföldum meirihluta mættra félagsmanna, enda hafi tillögur um breytingar verið kynntar í fundarboði. Breytingartillögur verða að berast stjórn með minnst þriggja daga fyrirvara.

Starfsreglur þessar voru samþykktar á aðalfundi 8. október 2015.