Ráð til foreldra / forráðamanna þolenda og gerenda

Ráðleggingar

 FORELDRAR ÞOLANDA GETA HJÁLPAÐ BARNINU SÍNU MEÐ ÞVÍ AÐ:

  • Hlusta af þolinmæði á barnið og reyna að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er án þess að beita löngum yfirheyrslum.
  • Hafa strax samband við umsjónarkennarann og eftir eðli málsins skólastjórnendur eða námsráðgjafa.
  • Gera barninu grein fyrir því að eineltið er ekki því að kenna.
  • Styrkja sjálfsmynd barnsins með því að ýta undir jákvæða eiginleika þess.
  • Varast að ofvernda barnið en fylgjast vel með hvað er að gerast í kringum það.
  • Hjálpa barninu að komast í samband við börn á sama aldri t.d. í gegnum íþróttir eða aðrar tómstundir.
  • Hjálpa barninu að byggja upp samband við annað barn úr bekknum t.d. með heimboðum.
  • Vera meðvitaðir um að einelti og stríðni getur leitt til þess að barnið fari í sjálfsvörn og liggi enn betur við höggi en áður. Við slíka hegðun þurfa foreldrar að hjálpa barninu að kalla fram jákvæðar leiðir til samskipta.
  • Gæta þess að barnið segi rétt frá og sleppi engu. Stundum eru þau í miklu uppnámi og eiga það til að ýkja það sem gerðist eða sleppa mikilvægum upplýsingum.
  • Muna að hrósa því fyrir að takast á við vandann. Þolandi eineltis sýnir mikið hugrekki með því að mæta í skólann á hverjum degi.
  • Leita aðstoðar fagfólks innan skóla eða utan ef líðan barnsins breytist ekki þó að eineltinu sé lokið.
  • Vinna með skólanum að lausn málsins með jákvæðu hugarfari, benda á það sem betur mætti fara og það sem vel er unnið. Gæta sín á því að það sem sagt er heima um skóla, einstaka starfsmenn, aðra nemendur, skólastjórn og fleiri getur hæglega borist til eyrna barnsins sem mun þá væntanlega endurspegla skoðun foreldra sinna. Beina kvörtunum og aðfinnslum beint til skóla.

FORELDRAR GERANDA GETA HJÁLPAÐ BARNI SÍNU MEÐ ÞVÍ AÐ:

  • Hlusta af þolinmæði á barnið og reyna að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er án þess að beita löngum yfirheyrslum.
  • Hrósa barninu fyrir að segja frá.
  • Ræða við barnið í rólegheitum. Reiði og skammir duga skammt.
  • Skýra út fyrir barninu að það sé ekki líðandi að særa aðra, hvort sem það er líkamlega eða andlega. Barnið þarf að skilja að maður ræðst ekki á minni máttar.
  • Reyna að fá barnið til að setja sig í spor þolanda og ímynda sér hvernig honum líður.
  • Ræða um hvernig barnið geti bætt fyrir hegðun sína og hvernig það geti látið þolandanum líða betur.
  • Kenna börnunum að bera virðingu fyrir öðrum, skoðunum og tilfinningum annarra og sýna umburðarlyndi.
  • Hrósa barninu þegar það hefur breytt hegðun sinni gagnvart þolandanum.
  • Leita aðstoðar fagfólks innan skóla eða utan ef hegðun barnsins breytist ekki.
  • Vera í góðu sambandi við kennara barnsins og fylgjast með framgangi málsins.