Verkefnið Komdu út að leika og skapa, sem styrkt er af Rannís, gengur út á að stórefla útinám í leik- og grunnskólum Kópavogs og tengja markvisst við skapandi starf.
Aðferðafræði Komdu út að leika og skapa byggir á kennslufræðilegri nálgun skipulagðra uppgötvunarferla, s.s. hönnunarhugsunar, söguaðferðar, lausnarleitunar og vísindalæsis.
Markmið verkefnisins Komdu út að leika og skapa er að efla og styrkja útinám innan skólasamfélagsins í Kópavogi og um leið að tengja námið markvisst við náttúruvísinda- og menningarstarfsemi bæjarfélagsins. Með samþættingu ólíkra skapandi aðferða er hægt að tengja saman ólík fög þar sem upplifun og uppgötvun á viðfangsefninu er megin markmiðið.
Útinám reynir á samvinnu, samkennd, virðingu og vináttu og að sama skapi þá styður það við heilbrigði, bæði á líkama og sál.
Verkefnið gengur út á að búa til nokkur stór þemaverkefni sem eru ætluð að endurspegla alla vinnu barnsins/nemandans hvort sem hún er unnin í skólanum, úti í náttúrunni eða í heimsóknum til samstarfsaðila verkefnisins. Þessi þemaverkefni taka mið af því námsefni sem nemendur eiga að vinna út frá þeirra aldursstigi og Aðalnámskrá leik- og grunnskóla.
Barnið/nemandinn öðlast aukna færni í að greina og leita lausna við ólíkar aðstæður. Sköpun og ólíkar úrlausnir eru þungamiðja í þessu verkefni. Hvert og eitt barn/nemandi fær að upplifa, greina og leita lausna út frá sínum forsendum.
Fjórir skólar innan Kópavogs sem taka þátt í þessu verkefni; Leikskólarnir Sólhvörf og Urðarhóll ásamt Kársnesskóla og Vatnsendaskóla.
Menningarhús Kópavogs og Skógræktarfélag Kópavogs eru samstarfsaðilar verkefnisins og munu þeir leggja verkefninu lið með sinni sérfræðiþekkingu.
Verkefnið hófst í september 2023 og lýkur formlega í júní 2024.