Námsver

Námsver

Sérkennsla og stuðningur við einstaka nemendur er hluti af almennu skólastarfi og getur kennslan farið fram ýmist í litlum hópum í námsveri eða inni í bekk. Markmiðið er að styðja við nemandann í skóla án aðgreiningar, tryggja honum jákvæðar námsaðstæður, besta mögulega námsárangur og líðan. Áhersla er lögð á fjölbreytt viðfangsefni og nám sem tekur mið af áhuga og getu hvers og eins með aðalnámskrá og skólanámskrá að leiðarljósi.

Markmiðið er að nemandi  fylgi sínum árgangi eins og kostur er en í námsverum gefst enn betra tækifæri til að sinna nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda í minni hóp.

  • Fjöldi nemenda í námsverum er mismunandi eftir árgöngum og eðli verkefna.
  • Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans.
  • Einstaklingsnámskrá er unnin fyrir nemendur þegar þörf er á að breyta námsmarkmiðum og aðlaga námsefni verulega.
  • Mikil áhersla er lögð á að ná góðu samstarfi við foreldra t.d. með reglulegum teymisfundum.

Í námsverum starfa kennarar, sérkennarar, þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar í nánu samstarfi við umsjónarkennara. Starfsfólk námsvera veitir einnig foreldrum og kennurum ráðgjöf eftir þörfum.