Byrjendalæsi í 1. – 3. bekk
Byrjendalæsi er kennsluaðferð sem hefur verið mótuð og þróuð við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Byrjendalæsi er samvirk leið í læsiskennslu nemenda í 1., 2. og 3. bekk. Samvirknin vísar til þess að sótt er í senn til einkenna og vinnubragða málheildaraðferða og eindaraðferða. Um er að ræða samvirka kennsluaðferð þar sem jöfnum höndum er unnið með merkingu máls og tæknilega þætti lestrarnámsins. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem fyrst á skólagöngu sinni. Byrjendalæsi er byggt á kenningum lestrarfræða um áhrifarík og vönduð vinnubrögð.
Byrjendalæsi er kennsluaðferð þar sem unnið er með fjóra meginþætti læsis; lestur, ritun, tal og hlustun. Nemendur í þriðja bekk einblína meira á orðaforða, skilning og ritun ásamt hinum fjórum meginþáttunum. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýti undir ímyndunaraflið, hvetji þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf.
Vinna með tal, hlustun, lestur og ritun er felld saman í eina heild í byrjendalæsi. Enn fremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, orðaforði, setningabygging, málfræði og skrift tengdir inn í ferlið. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið, því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt.