Uppeldi til ábyrgðar

Innleiðing á Uppeldi til ábyrgðar í Vatnsendaskóla hófst árið 2011. Í Uppeldi til ábyrgðar er gengið er út frá því að sjálfstjórnarkenningin sé aðalviðmiðiðið og bekkjargildin leiðarljósið. Ytri stýring á hegðun er hins vegar notuð til vara þegar nemandinn hefur farið yfir skilgreind mörk og stutt inngrip duga ekki til að koma honum aftur inn á það spor að lifa í sátt við gildi hópsins. Lögð er áhersla á að starfsmenn skólans sammælist um skýrar reglur um óásættanlega hegðun og þrói samstilltar leiðir til að fylgja þeim eftir. Skýr mörk skapa það öryggi og traust sem er nauðsynlegt skólasamfélaginu og til að styðja við þau lífsgildi sem hver bekkur og allur skólinn setur saman í félagslegan sáttmála. Að framfylgja ófrávíkjanlegum reglum er því hvorki hugsað sem refsing né skilyrðing til að hræða menn til hlýðni við reglur, heldur er það yfirlýsing um að leiðin sem barnið valdi sé óásættanleg og nauðsynlegt að taka af því ráðin. Í framhaldi af því eru barninu sköpuð tækifæri til að læra af mistökum sínum og það aðstoðað til að finna betri leiðir og byggja þannig upp sinn innri styrk.

Upphafsmaður Uppeldis til ábyrgðar er Diane Gossen en hún hefur starfsstöð í Kanada en starfar víða um heim. Meginmarkmiðið í kenningum Gossen er að kenna börnum ábyrga hegðun og sjálfstjórn með því að gefa þeim tækifæri til að leiðrétta mistök sín og kenna þeim að uppfylla þarfir sínar á jákvæðan hátt. Litið er á hugtakið mistök sem eðlilegan þátt í lærdómsferli, það sé eðlilegt að gera mistök og að mistökin nýtist sem ákveðið skref í þroska. Einstaklingur fær tækifæri til að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt, skoða hvað það var sem hann gerði rangt og hvað hann hefði getað gert öðruvísi. Hann lærir að bæta fyrir mistök sín og finnur hvernig hann styrkist af því. Þetta næst ekki ef hann er skammaður eða niðurlægður. Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í að skoða eigin hegðun og ræða um hvernig þeir ætli að bregðast við sambærilegum aðstæðum næst í stað þess að gera sömu mistökin aftur. Gossen skilgreinir uppbyggingu á þennan hátt: „Að skapa skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun”.

Nánarir upplýsingar hér:

http://netla.hi.is/greinar/2007/003/index.htm