Útskriftarverkefni

Nemendur í 10. árgangi hafa verið að vinna að stóru útskriftarverkefni í spretti og notað 20% af tíma sínum eftir áramót í að fá hugmynd, framkvæma hana og dýpka. Tilgangur þess var í stuttu máli að láta gott af sér leiða og bæta nærsamfélagið á einn eða annan hátt. Verkefninu lauk með foreldrasýningu. Það var greinilegt að nemendur höfðu lagt mikinn metnað og vinnu í sýninguna. Glæsileg og fjölbreytt verkefni biðu gesta og gangandi, þar sem nemendur kynntu heildarferlið og afurðina sem slíka.

Flest verkefnin og höfundar þeirra áttu það sameiginlegt að hafa rekist á veggi einhvers staðar á leiðinni en með þrautseigju og þolinmæði þá tókst að yfirstíga þær áskoranir á (Vatns)endanum. Til viðbótar verður að minnast á hina veglegu bása sem nemendur útbjuggu og skreyttu, svo ekki sé minnst á veitingarnar þar sem öllu var tjaldað til. Skemmtilegt framtak sem gaf ekki bara af sér frábær verkefni heldur einnig góða lokastund grunnskólagöngunnar. Sjá má myndir frá sýningunni á FB síðu skólans.

Posted in Fréttir.