Dagskrá foreldrafélagsins 2016 – 2017

Dagskrá veturinn 2016 – 2017

Fyrirlestur: „Kvíði barna og unglinga – aðferðir sem reynst hafa vel

– Vatnsendaskóli 29. september kl. 19:30

Fyrirlesturinn er í boði Samkóps og foreldrafélagsins og verður haldinn í Vatnsendaskóla þ. 29. september kl 19:30. Hugarfrelsi ásamt Önnu Sigurðardóttur sálfræðingi frá Heilsuborg, fjalla um kvíða og úrlausnir við honum. Þannig fá foreldrar heildstæðari mynd yfir það hvernig kvíði birtist og hvaða leiðir eru færar til vinna með hann.
Að baki Hugarfrelsi standa þær Hrafnhildur Sigurðardóttir og Unnur Arna Jónsdóttir, en þær hafa sérhæft sig í að kenna börnum, unglingum, fullorðnum og fagaðilum að nota sjálfsstyrkingu, öndun, jóga, slökun og hugleiðslu til að efla sig sem einstakling, losna frá áreiti samfélagsins og hugsana sinna.

Bekkjarfulltrúafundur.

Stutt yfirferð yfir hlutverk bekkjarfulltrúa. Fundur verður boðaður þegar endanlegri skráningu bekkjarfulltrúa er lokið.

Námsfyrirlestur fyrir skólaráðsfulltrúa og formenn foreldrafélaga.

Haldinn í samvinnu við Samkóp.

Hrekkjavökuball.

Hrekkjarvökuballið er haldið fyrir mið- og elsta stigs nemendur. Krakkarnir mæta uppáklædd í tilefni dagsins og skemmta sér. Í fyrra var kosið um besta búningin og 10. bekkingar sáu um diskótek.

Sala á skólapeysum.

Í skoðun er að bjóða nemendum að kaupa peysur merkta skólanum. Þetta var gert fyrir nokkrum árum og mæltist mjög vel fyrir. Ekki liggur fyrir hvenær þetta verður en stefnt er að því að þetta verði sett af stað sem allra fyrst og er undirbúningur í fullum gangi.

Bókasafnsdagurinn.

Bókasafnsdagurinn hefur verið haldinn einu sinni áður og tókst prýðilega vel. Á þessum degi hvetjum við börn, foreldra og aðstandendur til þess að taka til gamlar bækur og færa bókasafninu að gjöf, bækur sem oft á tíðum liggja óhreyfðar og rykfallnar í geymslum. Með þessu styrkjum við bókasafnið okkar og tryggjum aukna fjölbreytni. Stefnt er að því að fá rithöfunda til að koma og lesa úr verkum sínum au þess sem stefnt er að þvi að fá eitt eða fæeiri forlög til að styrkja bókasafnið með bókagjöfum. Hugmyndin er að hafa bókasafnsdaginn í nóvember.

Laufabrauðsdagurinn

Er að venju haldinn síðustu vikuna í nóvember. Þessi dagur hefur verið að mótast og breytast lítillega undanfarin ár. En í grunninn snýst þetta um að hittast í skólanum og skera út og baka laufabrauð. Laufabrauðsdagurinn er í umsjón 10. bekkinga og foreldrafélagsins.

Skautadagurinn.

Í fyrra  bryddaði foreldrafélagið upp á því nýnæmi að halda skautadag fyrir nemendur og foreldra skólans. NOVA studdi við bakið á okkur og gaf okkur aðgang að skautasvelli fyrirtækisins á Ingólfstorgi endurgjaldslaust. Foreldrafélagið bauð upp á heitt súkkulaði, jólaglögg og jólakökur. Skautadagurinn heppnaðist mjög vel og var gífurlega góð stemming og almenn ánægja. Endanleg dagsetning ræðst af því hvenær skautasvellið á Ingólfstorgi verður opnað.  Klara Briem er umsjónarmaður skautadags.

Páskabingó.

Bingóið verður á sínum stað. Gert er ráð fyrir því að bingóið verði tvískipt; yngri árgangarnir fyrst og síðan þeir eldri. Framkvæmd er í höndum 10.bekkinga.

Öskudagsball.

Foreldrafélagið í samvinnu við 10. bekkinga ákvað í fyrra að halda ball fyrir yngri nemendur skólans á Öskudag. Þetta var fanta mikið fjör, Sirkus Íslands skemmti krökkunum, tónlistin var að sjálfsögðu á sínum stað eins og á öllum alvöru böllum og allir voru kvaddir með smá nammi í tilefni dagsins. Gert er ráð fyrir að Öskudagsballið verði með svipuðu sniði á þessu skóla ári.

Hjóladagurinn.

Í fyrra var hjólað frá Vatnsendaskóla niður í Nauthólsvík, þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur og safa á ylströndinni. DrBæk var á staðnum og fór yfir hjólin og stillti bremsur og gíra. Eftir ríflega tveggja tíma samveru var farið heim á hjóli eða í strætó. Kerra var á staðnum þannig að hægt var að fá hjólum skutlað uppeftir en all flestir tóku hjólin bara með sér í strætó. Ráðgert er að hjóladagurinn verði svipaður á þessu skólaári, en foreldrafélagið er opið fyrir góðum hugmyndum. Eins ef einhverrir foreldrar hafa áhuga á að koma að skipulagi hjóladagsins, þá fögnum við því og óskum þess að viðkomandi setji sig í samband við okkur vatnsendaforeldrar@gmail.com

Vorhátíðin.

Á hverju ári fögnum við skólaslitum með því að blása til veglegrar vorhátíðar. Gert er ráð fyrir að vorhátíðin verði með svipuðu sniði og undanfarin fjögur ár. Foreldrafélagið hefur boðið uppá hoppukastala, sirkus skóla, blöðrutrúða og 9. bekkingar hefja fjáröflun sína fyrir útskriftarferð. Nemendur 10. bekkjar hafa séð um veitingar, boðið uppá rúllettu með vinningum, draugahús og annað þess háttar gegn vægu gjaldi.