Teymiskennsla

Í Vatnsendaskóla er litið á hvern árgang sem eina heild. Í 1.- 10. árgangi eru þrír til fjórir umsjónarkennarar í hverjum árgangi sem fara með sameiginlega umsjón. Kennarar árgangsins bera sameiginlega ábyrgð á nemendum og vinna saman að því að skipuleggja nám nemenda. Þetta fyrirkomulag stuðlar að sveigjanleika og býður upp á möguleika að breyta hópum í samræmi við viðfangsefni og aukna teymiskennslu þar sem það á við. Þannig nýtist styrkur og hæfni starfsfólks nemendum. Nemendum árganga er skipt í mismunandi hópa og lögð er áhersla á að nemendur í sama árgangi kynnist vel og fái tækifæri til að vinna saman. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að efla félagsþroska og félagsfærni nemenda, auka samkennd og þjálfa nemendur í að vinna með ólíkum einstaklingum að fjölbreyttum verkefnum. Þannig læra nemendur að taka tillit til þarfa hvers annars og verða hæfari til að lifa og starfa í lýðræðis þjóðfélagi. Ýmsar leiðir eru færar til að þjálfa nemendur í þessum þáttum en farsælast teljum við að starfið í skólanum bjóði upp á það mikla samvinnu nemenda að þeir þjálfist í þessum þætti í gegnum raunveruleg viðfangsefni. Sameiginleg ábyrgð á námi og líðan nemenda er grunnurinn í stefnu skólans.

Markmið teymiskennslu:

  • Að skapa heildstæða kennslu fyrir nemendur og litið sé á árganginn sem einn bekk, í stað stakra bekkjardeilda
  • Að efla fjölbreytni í kennsluháttum
  • Að bæta samvinnu og samskipti nemenda
  • Að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir sem leið til einstaklingsmiðaðs náms
  • Að auka við hlutbundna vinnu nemenda og að vinna nemenda sé stýrð af markmiðum aðalnámskrá frekar en að námsbækur stýri vinnu nemenda
  • Að bæta og auka samstarf starfsfólks með aukinni faglegri samvinnu.