Í gær fór fram meistaramót í skák hjá nemendum í 3. – 7. bekk. Um morguninn kepptu nemendur í 5. – 7. bekk og sendi Vatnsendaskóli fjögur lið í keppnina og voru það tvö stelpulið og tvö strákalið. Keppendur í þessum flokki stóðu sig frábærlega og var sérstaklega tekið eftir því hvað krakkarnir voru kurteisir og mikil samstaða og hugulsemi í hópnum.
Eftir hádegi var komið að 3. og 4. bekk. Mikill áhugi er á skák í þessum árgöngum og sendi Vatnsendaskóli hvorki meira né minna en sjö lið í keppnina (A-B-C-D-E-F-G sveitir) og er skemmst er frá því að segja að allar sveitirnar unnu til verðlauna í sínum flokki. Sveitirnar náðu einnig nær öllum verðlaunum yfir besta árangur á borðum.
A og B sveitir voru jafnar í lok móts og þá var ákveðið að sveitirnar yrðu að keppa um hverjir yrðu meistarar mótsins. Eftir þrjú einvígi var enn jafnt hjá sveitunum og var því ákveðið að kasta hlutkesti og þar var heppnin með B sveitinni sem hlýtur nafnbótina Kópavogsmeistararnir í liðakeppni í skák.
Segja má að krakkarnir séu að uppskera árangur erfiðis síns á þessu móti með mikilli eljusemi og dugnaði á æfingum. Einar skákkennari hefur verið með skákæfingar hér í skólanum einu sinni í viku en flestir keppendanna eru einnig að mæta á skákæfingar í Kórnum. Mikil gleði var í hópnum eftir þetta mót enda var árangurinn ótrúlegur.
Við óskum öllum þátttakendum til hamingju með árangurinn.