Útskriftarverkefni

Nemendur í 10. árgangi hafa verið sveittir frá byrjun febrúar í alls konar skapandi vinnu í tengslum við stórt útskriftarverkefni. Tilgangur þess var í stuttu máli að láta gott af sér leiða og bæta nærsamfélagið á einn eða annan hátt. Það er ansi fróðlegt að fylgjast með heildarferlinu sjálfu og sjá hvernig verkefni fæðist og stækkar frá agnarsmárri hugmynd og yfir í áþreifanlega afurð.

Það er vel við hæfi að enda 10 ára skólagöngu nemenda með útskriftarsýningu fyrir foreldra, kennara og aðra gesti. Herlegheitin fóru fram í hátíðarsal Vatnsendaskóla 24. maí sl. og það var greinilegt að nemendur höfðu lagt mikinn metnað og vinnu í sýninguna. Glæsileg og fjölbreytt verkefni biðu gesta og gangandi, þar sem nemendur kynntu heildarferlið og afurðina sem slíka. Meðal þess sem leit dagsins ljóss var gróðursetning trjáa í samstarfi við Garðyrkjudeild Kópavogs, fræðandi borðspil sem snýst um að bjarga heiminum og vekja athygli á stöðu heimsins í dag, árbók 10. bekkjar, frumlegar tilraunir til þess að vekja efnafræðiáhuga á yngri stigum skólans, fræðsla um netöryggi, geðsjúkdóma, matarsóun, kvíða, skipulag og markmiðasetningu auk verkefna sem tengjast heilsu og hreyfingu. Að sama skapi var ýmis konar söluvarningur í boði þar sem ágóðinn rann í gott málefni, og má þar nefna sápu-, kerta- og ilmvatnsgerð, brandarabók til að létta lundina í skammdeginu og happdrætti til styrktar Unicef.

Flest verkefnin og höfundar þeirra áttu það sameiginlegt að hafa rekist á veggi einhvers staðar á leiðinni en með þrautseigju og þolinmæði þá tókst að yfirstíga þær áskoranir á (Vatns)endanum. Til viðbótar verður að minnast á hina veglegu bása sem nemendur útbjuggu og skreyttu, svo ekki sé minnst á veitingarnar þar sem öllu var tjaldað til. Skemmtilegt framtak sem gaf ekki bara af sér frábær verkefni heldur einnig góða lokastund grunnskólagöngunnar.

Posted in Fréttir.