Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 15. maí. Klara Sigurmundadóttir og María Ásmundsdóttir kennarar í Vatnsendaskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Útiskóli í Guðmundarlundi. Markmiðið með Útiskólanum í Guðmundarlundi er að efla útikennslu og fjölbreytta kennsluhætti, styrkja kennara í vinnubrögðum sem tengjast útikennslu og gera nemendur virkari í náminu. Skipulagið er þannig að nemendur mæta í Guðmundarlund eins og á venjulegum skóladegi en ganga tilbaka í skólann með kennurum eftir hádegismat sem þau hafa eldað sjálf. Útiskólinn er skipulagður fyrir fjögurra vikna kennslulotu, einn árgangur fær einn dag í viku. Hér má lesa meira um Kópinn.