Vatnsendaskóli fær Kópinn

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 19. maí. Alls bárust 16 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Tvö verkefni frá Vatnsendaskóla, Sprettur og Barnaráð Stjörnuheima, voru tilnefnd og hlutu þau bæði viðurkenningu.

Anna Reynarsdóttir, Atli Jóhannsson, Sigríður Elsa Vilmundardóttir og Smári Þorbjörnsson hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sprettur, sem er þróunarverkefni á unglingastigi. Verkefnið hófst á haustmánuðum 2019 með samþættingu fjögurra námsgreina og var skipulagt til fimm ára með stöðugu endurmati á gæðum og gildum starfsins.

Ari Magnús Þorgeirsson, forstöðumaður frístundar, hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt, Barnaráð Stjörnuheima. Í Barnaráði er lögð rík áhersla á að byggja upp starfið á forsendum og þörfum barna. Barnaráðið kynnir jafnframt börn fyrir formlegu lýðræði og undirbýr þau fyrir þátttöku í samfélaginu.

Við erum afskaplega stolt af þessum verkefnum og erum full tilhlökkunar að sjá þau vaxa og dafna innan veggja skólans.

Við óskum öllum sem komu að þessum verkefnum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Hægt er að lesa nánara um verkefnin og Kópinn hér:

Posted in Fréttir.