Réttarferð hjá nemendum í 3. bekk

Á mánudaginn fór 3. bekkur í réttarferð í Selflatarétt í Grafningi. Í réttunum fengu börnin það hlutverk að reka kindurnar inn í almenning með því að mynda langa keðju. Þetta fannst börnunum afar skemmtilegt og fannst gaman að fylgjast með kindunum skoppa og flýja þennan flotta barnahóp. Vegna þoku um helgina gekk erfiðlega að smala kindunum ofan af fjalli og því voru frekar fáar kindur í réttunum þetta árið sem gerði það að verkum að börnin okkar fengu því miður ekki að draga í dilka. Það olli svolitlum vonbrigðum hjá sumum enda ákveðnar væntingar fyrir þessari ferð. Við fylgdumst þó með frá hliðarlínunni og fengum smjörþefinn af því hvernig réttir virka.

Það sem nemendum fannst minnistæðast var þegar einn bóndinn greip í hornin á stórum hrút sem tók þá á rás og bóndinn lá eftir kylliflatur. Einnig fannst þeim mjög merkilegt að kindaskíturinn liti út eins og Cocoa puffs. Þá þótti þeim mjög sárt að sjá einn bóndann brjóta hornið af einni kindinni í öllum hamagangnum og sjá allt blóðið sem kom. En bændurnir fræddu börnin um það að kindunum þætti þetta ekki mjög vont og að þetta líktist því þegar við mannfólkið missum nögl. Að lokum fannst börnunum afar skrítið og svolítið sorglegt að sjá bændurnar þukla lærin á nokkrum kindanna sem voru síðan teknar frá og sendar í heimsókn í sláturhúsið.

Réttarferðin heppnaðist afar vel, börnin lærðu margt skemmtilegt og voru skólanum og sjálfum sér til mikillar fyrirmyndar.

Posted in Fréttir.