Stelpur og tækni

Stelpur og tækni dagurinn  (Girls in ICT Day) var haldinn í sjöunda sinn á Íslandi, 20. maí. Dagurinn er haldinn víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.  Hugmyndin með deginum er að kynna ýmsa möguleika í tækninámi sérstaklega fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla og opna þannig augu þeirra fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Undanfarin ár hefur stelpum í 9. bekk nokkurra grunnskóla verið boðið að koma í HR og taka þátt í tveimur vinnustofum og að því loknu fengið að heimsækja helstu tæknifyrirtæki landsins. Þar hafa þær hitt kvenfyrirmyndir í faginu og fengið að kynnast þeim tækifærum sem eru í tæknigeiranum. Í ár þurfti að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu og þvi var dagurinn „online“ í þetta sinn. Boðið var upp á tvær vinnustofur, sú fyrri var einföld vefsíðuforritun í WordPress og sú seinni tónlistarforritun í Sonic pi. Vatnsendaskóli hefur tekið þátt í þessum degi undanfarin ár og þó hann hafi verið með breyttu sniði þetta árið tókst hann vel.

Posted in Fréttir.