Í Vatnsendaskóla er útskriftarárgangur skólans að vinna að verkefni sem gengur í stuttu máli út á að bæta samfélagið á einn eða annan hátt. Nemendur hafa í vetur notað 1 tíma á viku í að vinna að verkefninu og munu svo kynna það í hátíðarsal skólans miðvikudaginn 24. maí kl. 13:30.
Það er sérstaklega gaman að fylgjast með ferlinu hjá nemendum og sjá verkefnið þróast frá hugmyndastigi og þar til áþreifanleg lokaafurð verður til. Tveir nemendur, þau Kolbrún og Óðinn, fengu þá frábæru hugmynd að gróðursetja 100 tré á lóð skólans og höfðu sjálf samband við garðyrkjudeild Kópavogsbæjar sem tók sannarlega vel í þetta flotta framtak og útvegaði tré og öll verkfæri. 6. árgangur skólans aðstoðaði við gróðursetninguna og Kolbrún og Óðinn gengu svo í alla bekki skólans, kynntu verkefnið og brýndu fyrir nemendum að leyfa trjánum að vaxa í friði og ró.
Vatnsendaskóli er stoltur af verkefninu, sem er skólabókardæmi um hvernig hægt er að láta gott af sér leiða. Sjá má myndir á FB síðu skólans.